Færsluflokkur: Bloggar
1.8.2007 | 17:41
Akureyri
Mér finnst Akureyri frábær bær. Mér finnst alltaf einhvern veginn eins og ég sé ekki á íslandi þegar ég er á Akureyri. :=) Við nokkrar systur og mamma fórum af ættarmótinu og brunuðum til Akureyrar núna sunnudaginn seinasta.
Og, það var yndislegt að ganga um og mér finnst gamli bærinn sérstakur. Það er flott að sjá hvernig Akureyringar leggja sig í líma við að vernda byggingaarfleifð sína og halda öllu vel við.
Það er auðséð að þeim þykir vænt um bæinn sinn.
Og samanborið við glerhýsaáráttu Reykvíkinga, þá verð ég nú að segja að mér finnst að borgin mætti alveg taka Akureyri sér til fyrirmyndar stundum.
Við Thelma systir vorum saman á leiðinni í bæinn og verð ég að segja að ferðin sóttist vel og ýmislegt rætt sem verður ekki tíundað hér.... :) Það var engu að síður mjög skemmtilegt, áhugavert svo ekki sé meira sagt og kom ýmislegt í ljós.... ;)
Ég var að sjálfsögðu á Opelinum mínum, eðalvagni með meiru (og minna), en eins og margir vita að þá á Opelinn minn við heilsubrest að stríða. Það lýsir sér í því að hann hefur tekið upp á því að hökta við og við..... og þá ekkert smávegis!
Þetta er náttúrulega ekki kúl í góðu veðri þegar maður er að reyna vera flott með sólgleraugun og í hlýrabolnum að keyra í bænum á leiðinni úr vinnunni til dæmis....
En allavega, bíllinn minn er þannig að hann gengur fínt í langkeyrslu en ef ég slæ af, þá getur hann byrjað að hökta og vera leiðinlegur, drepa á sér og svona meira skemmtilegt. Og að sjálfsögðu byrjaði hann þegar ég var að koma að Hvalfjarðargöngunum.... ég kom höktandi að lúgunni og borgaði mitt far í gegnum göngin með hjartað í overdrive....
Tilhugsunin um að festast niðri í göngunum var ekki mjög aðlaðandi, ég er nefnilega ekkert alltof hrifin af þessum göngum og þaðan af síður að fara ofan í þau á biluðum bíl.
Við dóum hins vegar úr hlátri á miðri leið vegna þess að Thelma sat eins og spýtukall við hliðina á mér og ég með nefið ofan í rúðunni (ég geri það ef ég stressast í umferðinni). síðan veltur upp úr Thelmu á meðan við höktum niður í hyldýpið.... Heyrðu hvað segirðu, hefurðu komið upp í Kárahnjúka?... Ég dó úr hlátri og hún líka.
Eftir smá tíma hætti Opelinn að hökta og kom okkur heilum heim. :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.7.2007 | 17:11
Einn kaffibolla takk....
Ég veit ekki hvort ég er að verða svona gömul, eða hvort menningin á Íslandi er að breytast svona mikið. Kannski hafa einhver íslensk orð fengið nýja merkingu, og ég misst af því þegar það gerðist. Ég veit ekki nákvæmlega af hverju þetta gerðist, en ég var í Kringlunni um daginn eins og svo oft áður í sumarfríinu mínu. Mér datt það snjallræði í hug að setjast niður og fá mér góðan kaffibolla á kaffihúsinu sem er fyrir framan Útilíf (man ekki hvað staðurinn heitir).
Ég stillti mér upp í biðröðinni og beið að sjálfsögðu þolinmóð eftir að komið var að mér. Eftirfarandi samskipti fóru um það bil svona fram:
Ég: Góðan daginn, ég ætla að fá einn kaffibolla
Unga afgreiðsludaman: Kaffi Latte?
Ég: Nei, bara venjulegan kaffi takk
Stúlkan hikar og horfir undarlega skilningsvana á mig áður en hún spyr: Venjulegan kaffibolla?
Ég: Já, takk, bara venjulegan kaffibolla.
Stúlkan: Fyrirgefðu, hvað meinarðu með kaffibolla?.... ætlarðu að fá kaffi latte.....
Hérna virtist hún vera orðin hálfpirruð á mér og það virtist eins og hún væri orðin hálfleið á þessu sífelldu röfli mínu um eitthvað sem hét kaffibolli.....
Það flaug í gegnum huga mér þessi spurning: Er ég ekki á kaffihúsi??
ég veit ekki alveg, heitir kaffibolli ekki bara kaffibolli ennþá? það væri ágætt að fá að vita ef þessu hefur verið eitthvað breytt undanfarið. Kannski heitir þetta bara þessu nafni í kaffistofunum í Háskólnaum, ég veit það ekki.
Kannski heitir þetta núna Non fat. non whipped, low fat cappuchino, eða soyalatte með extra spænum og lítilli froðu takk, extra hot, darkbrown coffe to go.... Ég veit það ekki, en þetta var allavega hið undarlegasta mál. :)
Eigið góðan dag, og gangi ykkur vel að panta kaffibolla í framtíðinni!! :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.7.2007 | 22:29
Koss í Kringlunni og fleira skemmtilegt
Jæja, loksins komin í mitt langþráða frí og er að njóta mjög vel. Hangsa niðri í bæ og drekk kaffi og slúðra með systur og fer svo í Kringluna með annarri seinna um daginn til að hangsa og njóta mín. :)
Patrekur litli frændi er búinn að koma nokkrum sinnum í heimsókn til mín í Reykjavík, en hann býr á Eyrarbakka með mömmu sinni. Um seinustu helgi kom hann og var ég með hann bæði laugardag og sunnudag þar sem mamma hans var að vinna í Kringlunni yfir helgina. Alveg yndislegt að hafa krílið litla sem er á svo skemmtilegum aldri. Hann er 13 mánaða og nýfarin að labba. Þannig að núna þrammar hann um Kringluna og IKEA með hendur aftan við bak í nýju skónum sínum og skoða mannlífið
Þegar Íris systir var búin að vinna á sunnudaginn hittum við hana í Kringlunni. Þar gekk Patrekur um eins og honum einum er lagið og skoðaði mannlífið og í einstaka búðarglugga, þangað til hann hitti eina unga stúlku sem var á svipuðum aldri og hann, og líka nýbyrjuð að stunda labb. Hann stoppaði og skoðaði hana, og hún skoðaði hann. Eftir smá stund tók hann dudduna út úr sér og ætlaði að gefa henni, klappaði henni síðan á kinnina og smellti á hana einum litlum kossi.....Algjörlega yndisleg tilþrif enda vakti þetta mikla kátínu hjá fullorðna fólkinu í kring.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.7.2007 | 18:57
Játningar bókmenntafræðings
Ég verð að játa svolítið. Ég er forfallinn Josh Groban hlustandi þessa stundina. Maðurinn syngur algjörlega eins og engill!! Hún Hrefna vinkona kom með diskinn í vinnuna. Við urðum einhvern veginn að leysa einbeitingarleysið í vinnunni vegna þess að við gátum ekki hætt að tala um sumarfrí, segja hvorri annarri brandara ásamt fleiru skemmtilegu. þannig að við brugðum á það ráð að setja tónlist í eyrun.....með þessum frábærum árangri!
Núna er ég búin að þýða Játningar Ingvars kamprads yfir á íslensku (nei, ekki játningar Ágústus keisara), heldur stofnanda IKEA, á tvöföldum hraða, fara yfir alla kaupbæklingana fyrir sófadeildina og læra textann á nýju Josh Groban diskinum utan að. Ég mæli með þessari tónlist. Hún er frábær. :)
Annars er ég að fara í frí. Þeir sem þekkja mig vel vita að það er ekki á hverjum degi sem ég tek mér frí, auk þess sem ég á ansi erfitt með að vera bara í fríi. Ég verð alltaf að gera eitthvað (ofur)skemmtilegt, ævintýrafullt, ferðast, gera kannski einhver mistök eða jafnvel eitthvað af mér. En, ekki í ár. Núna ætla ég að fara upp í sveit, út að ganga á Laugarveginum (í Reykjavík), klára bókina sem ég er að lesa og njóta þess hreinlega að vera í fríi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.7.2007 | 14:25
Klukk á mig
Ég var klukkuð af Grumpu. Mér skilst að ég eigi þá að gefa upp átta staðreyndir um sjálfa mig. Síðan á ég að klukka átta aðra.... en ég held svei mér þá að allir bloggvinirnir mínir hafa verið klukkaðir, vegna þess að það virðist eitthvert klukkæði hafa gripið um sig í bloggheimum. Núna koma semsagt ýmisleg leyndarmál í ljós og þetta er nú kannski skárra en að tala bara um veðrið, sólina og hvort ég eigi að kaupa mér ís eða kassa af frostpinna (tek það samt fram að ég borða ekki alla frostpinnana í einu - bara svona til að halda reppinu).
1. Ég horfi á raunveruleikaþætti
2. Ég fermdist ekki
3. Ég er að hlusta á Josh Groban í vinnunni
4. Mér leiðist Batmanmyndir
5. Ég baka rosalega góðar ostakökur
6. Ég var vitstola AC/DC aðdáandi á unglingsárunum
7. Ég hef þekkt Grumpu í 23 ár
8. Ég sá aldrei Dirty Dancing
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.7.2007 | 09:06
Bara að segja hæ!
ég lifi á frostpinnum og ís þessa dagana og aldrei að vita nema maður missi nokkur kíló á þessu nýja matar - æði! :)
Annars er ferð í Flatey enn á kortinu og ég vona að við förum jafnvel næstu helgi ef allir eru í skapi. Ég er líka að fara í sumarfrí eftir þessa viku og ætla þá að gera eitthvað svakalega skemmtilegt, eins og að vera heima hjá mér í Reykjavíkinni og hanga í sveitinni á Eyrarbakka...Ekkert merkilegt þar svosem, vonandi bara að maður hitti fullt af skemmtilegu fólki og gamla vini! :)
Hafið það öll rosalega gott í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2007 | 23:38
How to survive a lit-major
Ég er bókmenntafræðingur og hef ósköp gaman af því að velta fyrir mér ýmsum máluefnum og kenningum. Stundum getur maður reyndar alveg gleymt sér ef maður er til dæmis að lesa áhugaverða bók um sænskt tungumál eða að kynna sér frásagnarhátt í fornkvæðum, eða kannski maður les um dauða Virgils þangað til maður fer að gráta....vegna þess hvað textinn er torskilinn, langur og fjötrandi.
Ég kom til dæmis núna í heimsókn til Thelmu systur og sagði henni frá þessari ótrúlega fersku og skemmtilegu kenningu um heftarann í vinnunni. En heftarinn virðist oft verða ákveðið tilfiinningartákn í frásögum og þá sérstaklega í kvikmyndum. Hver kannast ekki við að hafa séð kvikmynd þar sem einhver aðalhetjan gengur út úr skrifstofunni, miður sín yfir að hafa verið rekin/n - og stelur heftaranum í leiðinni! svona eins og það sé það eina sem tengir hann/hana við starfið, lífið fyrir utan eða kannski táknar heftarinn sjálfstæði af einhverju tagi. Stundum hafa meira að segja komið upp rifrildi um hver eigi að fá heftarann, fyrirtækið eða einstaklingurinn.....hm, kannski aðeins að missa mig í kenningunni hérna....
En lausnin sem Thelma kom með var að skrifa bók....um það hvernig venjulegt fólk eigi að lifa af samræður við bókmenntafræðing í ham! Hvernig á maður til dæmis að bregðast við ástríðufullum kenningarsmíðum bókmenntafræðingsins um heftarann í vinnunni?! Hverjum öðrum en bókmenntafræðingnum myndi detta í hug að skilgreina heftarann og sjá hann útfrá menningarfræðilegu og táknfræðilegu sjónarmiði?
Hvað á maður að gera þegar bókmenntafræðingurinn hittir mann á kaffihúsi, nýkominn úr tíma og blaðrar út í eitt um heimspekilega og sögufræðilega bók sem hann er að lesa á sænsku - um sænskt tungumál. Hvenær var til dæmis orðið hemmafru innleitt í sænskuna? Eða af hverju er orð til á sænsku sem heitir IKEA väder? o.s.frv.
Ég veit ekki hvort það yrði metsölubók, en ég gæti allavega greint hana útfrá bókmenntafræðilegu og menningarlegu sjónarhorni.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.7.2007 | 08:38
Sögur úr sveitinni
Annars fór ég í afmælisboð sem Linda systir var að halda fyrir Douglas litla seinni partinn í gær og þegar ég var nýkomin inn úr dyrunum og komin með kaffibollann í hendina, haldiði þá ekki að nágrannakonan hafi komið hlaupandi inn í garðinn....á eftir hænu sem hafði sloppið út og hljóp nú útum allan garð. Hænan hljóp í kringum húsið (með konuna á eftir sér), bakvið bílinn minn og síðan hljóp hún gaggandi niður Túngötuna og bóndakonan allan tímann á eftir henni. Ég frétti víst að hún hafi verið búin að hlaupa hringinn í kringum hálft þorpið áður en konugreyið náði henni loksins.
Það er víst alltaf nóg um að vera í sveitinni! ... :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.6.2007 | 16:16
Góða veðrið á Íslandi
Sko, mér finnst að maður eigi að fá frí í vinnunni þegar það er svona gott veður.... Ég get ómögulega fundið mér ástæðu til að fá vinnubílinn lánaðan til að skreppa út í góða veðrið...þannig að ég sit föst á skrifstofunni!
Svo fær maður alltaf hálfgert panikkast þegar veðrið er svona gott, vegna þess að eins og allir Íslendingar vita að þá er skylda að eyða deginum/kvöldinu úti í svona flottu veðri, þannig að ég byrja alltaf á því að hugsa um milljón hluti sem ég get gert þegar ég losna af skrifstofunni. Á ég að fara í sund? Nei, ég fer út að hlaupa,....niður í bæ og kaupi mér ís...eða hitta vinkonu mína á kaffihúsi...grilla...út í bíltúr....út að labba í Nauthólsvík....á endanum verður maður svo uppgefin af öllu saman að maður fer bara heim og gerir ekki neitt... :)
Kannsi ég fari bara og kaupi mér ís, það er ágætist byrjun. :)
Njótið góða veðursins!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.6.2007 | 18:57
Vík í Mýrdal
Jæja, enn einu sinni lagði ég land undir fót með Lollu vinkonu um helgina. í þetta sinnið fórum við aðeins lengra og vorum ekkert að horfa á klukkuna, heldur ákváðum að nýta okkur bændagistingu á Eystri-Sólheimum um nóttina og hafa þá nægan tíma báða dagana til að skoða okkur um og njóta ferðarinnar. Við stoppuðum á svo mörgum stöðum á leiðinni upp eftir og síðan á heimleiðinni að það er nánast erfitt að muna. :) En, við keyrðum til dæmis á Vík í Mýrdal á laugardagskvöldinu og fengum okkur gott að borða. Löbbuðum síðan eftir það niður í fjöruna og eins langt upp að fjallinu og að Reynisklettum og við gátum.
Ég get sagt að þetta var algjörlega yndislegt! Ísland er svo frábært land og það er svo undarlegt að mér finnst ég alltaf komast svo ótrúlega nálægt náttúrunni hérna. Það er svo mikill kraftur í hafinu, vindinum, sólinni og bara í landinu! Ég er alveg viss um að flestir þekkja þessa tilfinningu!
Annars blés ansi byrlega á laugardaginn og hárið á mér var til vitnis um það. Það var eiginlega eins og á Brigdet Jones þegar hún missti slæðuna á leiðinni upp í sveit með Hugh Grant....Enda var mikið moldrok og hárið á mér orðið svona móbrúngult einhvern veginn....
Við kíktum líka inn á Reynishverfi og gengum þar í fjörunni og skoðuðum náttúrufegurðina, við fundum forláta foss undir Eyjafjöllum sem við höfðum hvorugar hugmynd um að væri til, við keyrðum í kringum Pétursey og sáum rústir þar sem Jón Steingrímsson eldprestur bjó til forna og við stoppuðum líka við nokkrar rústir við Steinar þar sem til dæmis forláta samkomuhús er í niðurníðslu. Þar lenti Lolla í því að fá heilt kálfa (nauta/belju) stóð á eftir sér....(borgarbúinn ég sé eiginlega engan mun á þessu öllu saman...) :) En þar sem Lovísa kallar nú ekki allt ömmu sína, þá rak hún stóðið til baka sallaróleg.
Þetta var yndisleg ferð hreint út sagt. Næst er stefnan tekin á Flatey eða Skaftafell. Það er langt síðan ég hef komið á Skaftafell og væri mikið til í að fara þangað eins og eina helgi. Maður sér til.
Hafið það gott þangað til næst! :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)