Jólaandinn í umferðinni (?)

Mér finnst ég bara verða aðeins að fá að tjá mig um umferðina. Ég hef núna lent í því tvisvar með mjög stuttu millibili að fólk sem er mér mjög kært hefur lent í umferðaróhöppum.

 Fyrsta atvikið gerðist rétt fyrir jólin, en þá var ein besta vinkona mín að keyra af bílaplaninu fyrir framan vinnuna hjá sér þegar í veg fyrir hana keyrir bíll sem sinnti ekki stöðvunarskyldu og vinkona mín keyrir þar af leiðandi beint inn í hliðina á bílnum. Báðir bílarnir voru það skemmdir að það þurfti að draga þá í burtu en það mikilvægasta var að sjálfsögðu að engin meiddist alvarlega!

En viti menn, ökumaður hins bílsins æðir út úr sínum bíl og hellir svívirðingum yfir vinkonu mína. ,,Hvern ans.. varstu að hugsa þarna!!" og svo framvegis. Ökumanninum var kurteislega bent á það að hún er í órétti....  En hvað svosem með það hvort maður er í órétti eða ekki. Það er engin ástæða til að koma svona fram þegar maður lendir í bílslysi....þetta er jú bara slys og mikilvægt að sýna ró og kurteisi í svona aðstæðum. Vinkona mín meiddist á öxlinni og ég vona að hinn ökumaðurinn hafi ekki meiðst neitt.

En, svo núna í gærkvöldi, þá lenda ég og maðurinn minn í því að við erum að keyra niður þrönga götuna heima þegar jeppi mætir okkur. Vegna snjóþunga þá er vegurinn svo þröngur að bílarnir strjúkast við hvorn annan. Ég tek það fram að þetta er óhapp, og eins minni háttar og mögulegt er. Svona getur bara því miður gerst, og minnsta málið hefði verið að leysa þetta með kurteislegu spjalli og tjónaskýrslu.

En viti menn, maðurinn í jeppanum kemur út ALGJÖRLEGA BRJÁLAÐUR. Hann öskrar gjörsamlega á manninn minn, við erum hálvitar og ég veit ekki hvað. Ég varð hrædd á tímabili að hann ætlaði að ráðast á manninn minn. Hugsið ykkur. Það kom nokkurra sentímetra rispa á bílinn hans....

Mig langar bara að spyrja, hvað er eiginlega að? Af hverju í ósköpunum halda sumir að bílinn og umferðin sé einhvers konar terapísk reiðiútrás? Ég er svo gáttuð á hegðun fólks í umferðinni stundum að ég get varla orða bundist. Og svo getur fólk ekki einu sinni fundið nægilegan frið í hjarta sínu um jólin, heldur ógnar fólki með öskrum og látum yfir örlitlu óhappi á jólakvöldi......

Reynum í guðana bænum að sýna tillitsemi og kurteisi í umferðinni. Við erum öll bara mannleg, við eigum öll ástvini og höfum tilfinningar. Við getum ekki bara hætt að vanda okkur í samskiptum við hvert annað og sýna öðrum virðingu, bara vegna þess að við setjumst inn í dautt tæki...sem er nota bene bara tæki, en getur hæglega orðið okkar bani ef ekki er varlega farið.

Ég vona annars að allir hafi notið jólana og ég óska öllum gleðilegs árs og velfarnaðar í umferðinni á nýju ári.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Sammála þér, það er leiðinlegt þegar fólk getur ekki hagað sér eins og siðmenntaðir einstaklingar og tekur það svona út á öðrum þegar stressið er alveg að fara með liðið. Kannski hefur öskrarinn í þröngu götunni borðað of mikinn sykur þetta kvöld :)

Thelma Ásdísardóttir, 31.12.2007 kl. 16:04

2 Smámynd: Grumpa

fólk breytist í stjórnlaus óargadýr þegar það sest undir stýri á ökutæki. á sérstaklega við um fólk á jeppum

Grumpa, 1.1.2008 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband