1.8.2007 | 17:41
Akureyri
Mér finnst Akureyri frábær bær. Mér finnst alltaf einhvern veginn eins og ég sé ekki á íslandi þegar ég er á Akureyri. :=) Við nokkrar systur og mamma fórum af ættarmótinu og brunuðum til Akureyrar núna sunnudaginn seinasta.
Og, það var yndislegt að ganga um og mér finnst gamli bærinn sérstakur. Það er flott að sjá hvernig Akureyringar leggja sig í líma við að vernda byggingaarfleifð sína og halda öllu vel við.
Það er auðséð að þeim þykir vænt um bæinn sinn.
Og samanborið við glerhýsaáráttu Reykvíkinga, þá verð ég nú að segja að mér finnst að borgin mætti alveg taka Akureyri sér til fyrirmyndar stundum.
Við Thelma systir vorum saman á leiðinni í bæinn og verð ég að segja að ferðin sóttist vel og ýmislegt rætt sem verður ekki tíundað hér.... :) Það var engu að síður mjög skemmtilegt, áhugavert svo ekki sé meira sagt og kom ýmislegt í ljós.... ;)
Ég var að sjálfsögðu á Opelinum mínum, eðalvagni með meiru (og minna), en eins og margir vita að þá á Opelinn minn við heilsubrest að stríða. Það lýsir sér í því að hann hefur tekið upp á því að hökta við og við..... og þá ekkert smávegis!
Þetta er náttúrulega ekki kúl í góðu veðri þegar maður er að reyna vera flott með sólgleraugun og í hlýrabolnum að keyra í bænum á leiðinni úr vinnunni til dæmis....
En allavega, bíllinn minn er þannig að hann gengur fínt í langkeyrslu en ef ég slæ af, þá getur hann byrjað að hökta og vera leiðinlegur, drepa á sér og svona meira skemmtilegt. Og að sjálfsögðu byrjaði hann þegar ég var að koma að Hvalfjarðargöngunum.... ég kom höktandi að lúgunni og borgaði mitt far í gegnum göngin með hjartað í overdrive....
Tilhugsunin um að festast niðri í göngunum var ekki mjög aðlaðandi, ég er nefnilega ekkert alltof hrifin af þessum göngum og þaðan af síður að fara ofan í þau á biluðum bíl.
Við dóum hins vegar úr hlátri á miðri leið vegna þess að Thelma sat eins og spýtukall við hliðina á mér og ég með nefið ofan í rúðunni (ég geri það ef ég stressast í umferðinni). síðan veltur upp úr Thelmu á meðan við höktum niður í hyldýpið.... Heyrðu hvað segirðu, hefurðu komið upp í Kárahnjúka?... Ég dó úr hlátri og hún líka.
Eftir smá tíma hætti Opelinn að hökta og kom okkur heilum heim. :)
Athugasemdir
Sammála með Akureyri, fínasti bær. Ég var líka sérlega hrifin af því að það er frítt í strætó hjá þeim, eitthvað sem Reykjavík má líka taka sér til fyrirmyndar. Og Ruth, vinsamlegast ekki tala um umræðuefnin okkar í bílnum á leiðinni. Það gæti orðið hið versta vandræðamál :) Æðisleg ferð.
Thelma Ásdísardóttir, 1.8.2007 kl. 22:54
verð einmitt á Akureyri um helgina og kemst vonandi í einhvern ljósmyndarúnt út í sveit þó svo að helmig roadtripfélagsins Ruth og Lolla group sé ekki með í för
Grumpa, 1.8.2007 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.