25.6.2007 | 18:57
Vík í Mýrdal
Jæja, enn einu sinni lagði ég land undir fót með Lollu vinkonu um helgina. í þetta sinnið fórum við aðeins lengra og vorum ekkert að horfa á klukkuna, heldur ákváðum að nýta okkur bændagistingu á Eystri-Sólheimum um nóttina og hafa þá nægan tíma báða dagana til að skoða okkur um og njóta ferðarinnar. Við stoppuðum á svo mörgum stöðum á leiðinni upp eftir og síðan á heimleiðinni að það er nánast erfitt að muna. :) En, við keyrðum til dæmis á Vík í Mýrdal á laugardagskvöldinu og fengum okkur gott að borða. Löbbuðum síðan eftir það niður í fjöruna og eins langt upp að fjallinu og að Reynisklettum og við gátum.
Ég get sagt að þetta var algjörlega yndislegt! Ísland er svo frábært land og það er svo undarlegt að mér finnst ég alltaf komast svo ótrúlega nálægt náttúrunni hérna. Það er svo mikill kraftur í hafinu, vindinum, sólinni og bara í landinu! Ég er alveg viss um að flestir þekkja þessa tilfinningu!
Annars blés ansi byrlega á laugardaginn og hárið á mér var til vitnis um það. Það var eiginlega eins og á Brigdet Jones þegar hún missti slæðuna á leiðinni upp í sveit með Hugh Grant....Enda var mikið moldrok og hárið á mér orðið svona móbrúngult einhvern veginn....
Við kíktum líka inn á Reynishverfi og gengum þar í fjörunni og skoðuðum náttúrufegurðina, við fundum forláta foss undir Eyjafjöllum sem við höfðum hvorugar hugmynd um að væri til, við keyrðum í kringum Pétursey og sáum rústir þar sem Jón Steingrímsson eldprestur bjó til forna og við stoppuðum líka við nokkrar rústir við Steinar þar sem til dæmis forláta samkomuhús er í niðurníðslu. Þar lenti Lolla í því að fá heilt kálfa (nauta/belju) stóð á eftir sér....(borgarbúinn ég sé eiginlega engan mun á þessu öllu saman...) :) En þar sem Lovísa kallar nú ekki allt ömmu sína, þá rak hún stóðið til baka sallaróleg.
Þetta var yndisleg ferð hreint út sagt. Næst er stefnan tekin á Flatey eða Skaftafell. Það er langt síðan ég hef komið á Skaftafell og væri mikið til í að fara þangað eins og eina helgi. Maður sér til.
Hafið það gott þangað til næst! :)
Athugasemdir
Já þetta var alveg æðisleg ferð! Og ef einhver er að spá í hvernig við fórum að því að keyra í kring um Pétursey þá er eyjan sú uppi á landi og þessi fínasti akvegur í kring. Skrýtnir þarna á suðurlandinu!
Grumpa, 25.6.2007 kl. 21:07
Þetta hljómar yndislega...nema þetta með vígakýrnar!!! Ég hefði örugglega ruðst svo hratt í gegnum rústirnar að restin af þeim hefði hrunið, og örugglega með allar brjáluðu beljurnar á hælunum.
Ef þið ætlið í Flatey þá megiði láta mig vita, mig langar með :)
Sammála þér Ruth um að Ísland er algjörlega dásamlegt land, svo kraftmikið og magnað.
Thelma Ásdísardóttir, 25.6.2007 kl. 23:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.