22.3.2007 | 22:23
New York og náttúran
Í mörg ár hefur mig alltaf langað að koma til New York. Ég hef séð ótal margar rómantískar kvikmyndir sem gerast í þessari borg borganna, ásamt því að hafa séð hana tortímast með misgóðum tæknibrellum ótal sinnum. Það var eitthvað sem heillaði mig einstaklega við þessa borg og mig langaði óskaplega til að snerta á þeim heilaga stað sem New York borg gefur sig út fyrir að vera. Þetta er staðurinn þar sem draumarnir rætast, hérna verður maður ríkur ef maður er bara nógu sterkur og slyngur, hérna er vagga heimsins.
Með þessar goðsagnir í farteskinu flaug ég til New York seint í nóvember á seinasta ári. Ég var búin að sérvelja allan fatnað og þaulskipuleggja alla dagana - tískufræðilega séð. Maður gengur náttúrulega ekki um Manhattan í sömu fötunum og maður hleypur út í Nóatún á mánudagskvöldum. Fyrir mér var eiginlega aðal atriðið samt að sjálfsögðu að sjá borgina, ganga upp og niður Fith Ave., sitja í Central park, fara niður í The Village, labba einn hring í Tiffany´s, sjá bókasafnið ásamt ótal fleiru.
Ég hélt einhvern veginn, í öll þessi ár að þessi borg væri einskonar Mekka okkar Vesturlandabúa. Að ef ég myndi einhver tíma koma á þennan stað, þá myndi ég öðlast aftur (kannski örlítið barnalega) trú mína á vestræna menningu. Að ég fengi staðfest að það væri vel þess virði að leggja allt í sölurnar fyrir framan, að peningar skiptu nú kannski höfuðmáli þegar að hamingjunni kæmi og að útlitið segði mikið um einstaklinginn.
New York Olli mér sárum vonbrigðum, eða kannski frelsaði mig öllu heldur. Þetta er einn daprasti staður sem ég hef nokkur tíma komið á. Maturinn er jú mjög góður, en yfir borginni grúfir sorg og dapurleiki sem ristir djúpt. Hún minnir á einhvers konar risa sem nærist á engu nema eigin holdi og blóði. Og risinn er komin langt með sjálfan sig, búin að éta úr sér hjartað og farin að naga beinin.
Ég lærði eiginlega heilmikið á því að fara þessa ferð. Hún kenndi mér í rauninni mjög margt. Risa stórar peningaupphæðir, mikil völd, blind framasýki, steypa og gler er ekki eitthvað sem ég þrái. Ég þarf náttúruna í kringum mig, fólk sem trúir ekki bulli eins og Frjáls Ameríka og Ameríski Draumurinn. Ég þarf líka að geta horft upp til himins og séð sólina, en ekki skyscrapers, ljósaskilti og flugvélar.
Í New York fann ég engan veginn rómantíkina sem Norah Ephron sviðsetur í kvikmyndum á borð við Sleepless in Seattle og You´ve got Mail. Ég sá heldur ekki einbeitt og sigurglatt fólk. Það eina sem ég sá voru endalaust pirraðir íbúar sem voru yfirhöfuð mjög dónalegir við hvern annan.
New York stendur eiginlega bæði fyrir það besta í vestrænni menningu (þú getur fengið allt þarna sem viðkemur gerviþörfum og nútímamenningu) en einnig því allra versta.
Athugasemdir
Ég hef aldrei komið til N.Y og sú borg hefur ekki verið ofarlega á lista hjá mér og ég veit ekki af hverju kannski vegna þess að ég þoli ekki snillinginn Woody Allan eða kannski vegna þess að ég er of mikill sveitalúði í hjarta mínu til að meika alla þessa steypu.
linda (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 23:07
Það er samt alltaf eitthvað einstakt og sterkt við að gera loksins það sem mann hefur lengi dreymt um að gera. Ég vona að Tokyo valdi mér ekki vonbrigðum þegar ég kemst loksins þangað :)
Thelma Ásdísardóttir, 23.3.2007 kl. 00:11
Það er eins og fólk annað hvort elski NY af ástríðu eða hati hana. Borgin hefur verið seld svo miskunnarlaust í kvikmyndum að erfitt er að mynda sér hlutlausa skoðun. (Kannski ekki hægt að hafa hlutlausa skoðun?) Hef ekki komið þar sjálf - og ekkert sem togar mig þangað satt að segja.
Halldóra Halldórsdóttir, 24.3.2007 kl. 15:46
Ég gleymi því aldrei þegar fyrrverandi tengdamóðir mín kom til Íslands í fyrsta skiptið. Henni fannst ótrúlega draslaralegt og subbulegt á Íslandi. Sagði að það þyrfti að taka til í náttúrunni, slétta móana og hraunið, gróðursetja runna, setja upp grindverk og mála í fallegum litum eins og í "sveitinni" á Englandi. Við sem erum alinn upp við að ganga í þúfum og móum og anda að okkur ferskum Norðan Níu, eigum hálf erfitt með að fóta okkur í borgarskipulagi Vesturlandabúa. Ennþá erum við ekki búin að valta yfir náttúruna með sléttujárni, sparsla uppí hrukkur og ójöfnur með steypu og mála í ónáttúrulegum litum. Vonandi að okkur beri gæfa til að halda áfram að ganga í móum og hrauni.
Drífa Sig (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 20:12
Kom til New York í fyrsta sinn árið 1989. Man að ég fór upp í Empire State bygginguna og leit yfir borgina og þá áttaði ég mig allt í einu á því að það var ekki stingandi strá að sjá svo langt sem augað eygði. Bara gráar götur og byggingar og óteljandi gulir leigubílar sem skriðu um göturnar. Hef búið í öðrum borgum Bandaríkjanna, þar sem er pláss fyrir gras og nokkur tré, en New York hefur aldrei verið í uppáhaldi hjá mér.
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 23:30
Ég bjó í New York í nokkra mánuði 1988 og kolféll fyrir borginni. Ég bjó í fjölþjóða umhverfi og eftir að hafa jafnað mig á "stórborgarsjokkinu" þá fannst mér borgin frábær. Ég kynnist sérstaklega vel Suður Amerískri menningu og listalífi borgarinnar og hef sjaldan kynnst jafnmikilli flóru og hæfileikafólki. Suður Amerísk tólistarhefð er mjög sterk í New York og eins kynntist ég vel tónlistarfólki sem hafði viðurværi við að spila á börum og við neðanjarðarlestir. Það var ekki fólk sem var að betla heldur er þetta sérstök tónlistarmenning sem er mjög sterk í New York. Greenwich Village var svo eins og mitt annað heimili meðan ég var þarna og þar var ógrynni af æðislegum klúbbum og kaffihúsum og börum. Tíminn sem ég bjó þarna leið allt of hratt og einhverntímann þarf ég að koma þangað aftur :-)
Kristján Kristjánsson, 25.3.2007 kl. 18:59
Hef bæði komið til New York og San Francisco og af þessu tvennu kann ég þónokkuð betur að meta frjálslyndu hippana sem sjá ekkert athugavert við syndsamlegt athæfi eins og samkynhneigð og fóstureyðingar auk þess sem borgin er bara sjarmerandi svona á köflum. Verst að þar er fullt af ameríkönum!
Grumpa, 26.3.2007 kl. 19:42
Ég hef ferðast út um allan heim og þar á meðal hef ég séð ótal margar amerískar borgir, eins og Denver, Los Angeles, Washington, San Fransisco, Baltimore og Memphis svo nokkrar séu nefndar, og allar heilluðu mig meira en New York, vegna þess að þar var að finna stingandi strá og eitthvað annað en steypa og pirraðir íbúar. Eg held ekki að þetta sé spurning um að venjast borginni, menguninni og hávaðanum, þetta er spurning um hvað ég persónulega þrái í mínu lífi og hvað fær mig til að líða vel.
Ruth Ásdísardóttir, 26.3.2007 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.