22.3.2007 | 13:03
Hroki og hleypidómar
Nú er komið svo að ég held, að bankarnir í þessu landi líta á sig sem aristókrata og kóngafólk sem drottna yfir ,sauðsvörtum almúganum". Ég átti leið mína í Kaupþing banka um daginn en það er bankinn sem ég á viðskipti við. Þar mætti mér ótrúlega hrokafull ung stúlka sem kallar sig því miður ÞJónusturáðgjafa. Hún vildi ólm sýna vald sitt yfir mér (sem er greinilega sauðsvartur almúginn í hennar augum), og spurði mig til dæmis hvað ég hefði verið að kaupa mér út á krít? Og var þá að vísa í Mastercard reikninginn minn. Ég veit ekki til þess að það komi þessari stúlku við hvað ég er að kaupa mér út á krít, og eins og það hafi ekki verið nægilega dónalegt að spyrja mig þessarar spurninga, þá hélt stúlkan áfram og sagði stundarhátt: ,,Ja, það hlýtur að hafa verið eitthvað mjög stórt fyrst þú ert að borga svona mikið" !
Ég verð að segja að mér varð hreinlega orðfall og skyndilega rifjaðist upp fyrir mér sú tíð þegar ég var tvítug ung stúlka og þurfti að panta tíma hjá bankastjóranum. Þar sat ég svo lúpuleg, loksins þegar ég fékk áheyrn og reyndi einhvern veginn að sannfæra karlinn á háa stólnum að ég væri nú alveg borgunarmaður/kona fyrir láninu sem ég, auðvirðulegur viðskiptavinurinn, ætlaði náðarsamlegast að taka.
Með tímanum sáu bankarnir þó að þeir myndu væntanlega græða meira ef þeir auglýstu sig sem jafninga fólksins. Og það hlýtur að hafa tekist svona rosalega vel, vegna þess að nú er velferð bankans sem ég skipti við orðin slík að starfsmennirnir halda það sé sjálfsagt mál að koma fram með yfirlæti og hroka við viðskiptavini sína sem hafa kannski öll sín viðskipti við bankann, og borga auk þess fyrir það himinhá þjónustugjöld, vexti og annan kostnað. Ég verð að viðurkenna að ég hreinlega reiðist þegar ég lendi í svona vitleysu núna í dag. Bankar eins og Kaupþing leigja sér rándýra leikara til að taka þátt í auglýsingaherferð og þykir ekkert tiltökumál að segja frá tuga prósenta launahækkunum ráðamanna í æðstu stöðum.
Bankar eins og Kaupþing virðast algjörlega vera að gleyma hvaðan peningarnir koma, en það er fólkið í landinu sem heldur þessum stofnunum uppi, og jú, með himinháum þjónustugjöldum. Ég er þar af leiðandi ekki til í að fulltrúi Kaupþings gagnrýni mig fyrir hvað ég eyði á kreditkortinu mínu. Þar af leiðandi hef ég hugsað mér að segja bankanum mínum upp og leita til annars banka.
Athugasemdir
Ég er að vísu svo ljónheppin að vera með þann besta þjónustufulltrúa sem fyrir finnst, algjörlega frábær. Þó hef ég í gegnum tíðina lent í svona afgreiðslu hjá bönkum. Getur verið gjörsamlega óþolandi
Thelma Ásdísardóttir, 22.3.2007 kl. 13:34
Forstjóri og Stjórnarformaður Kaupþings græddu fleiri hundruð milljónir í sína stóru vasa í dag, svo hvað er þessi hrokafulli þjónustufulltrúi að þenja sig við þig. Þessar bankastofnanir eru tilbúnar að rýja okkur öll inn að skinni og starfsmönnum þeirra á ekki að leyfast svona framkoma. Ég hef aðeins einu sinni á æfinni lent í hörmulegri bankaþjónustu og það var í SPRON; Skólavörðustíg og fer þangað aldrei aftur . Sjálfur skipti ég við Kaupþing og spyr þig því Ruth í hvaða útibúi Kaupþings var þetta ?
Stefán
Stefán (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 16:45
Þetta virðist vera að aukast finnst mér þessi hroki í þjónustufulltrúum. Ég hef verið ánægður með minn banka Sparisjóðinn hingað til en núna tvisvar í röð fengið lélega þjónustu. Bankarnir ættu að fara taka þetta alvarlega til skoðunar. Sérstaklega bankar sem eru að auglýsa góða þjónustu.
Kristján Kristjánsson, 22.3.2007 kl. 17:32
Einu sinni voru vondu karlarnir Kaupfélagsstjórarnir sem áttu allan bæinn eða útgerðarkóngur sem borgaði öllum bæjarbúum laun svo þeir gætu keypt vörur frá honum... eða fékk fólk kannski bara inneign. Nú er það Bankinn sem á okkar litlu sálir, en vittu til ef þú vinnur milljón færist þú ofar í virðinagarstiganum og þá má hrokafull þjónustufulltrúi vara sig... :)
linda (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 20:02
Þetta var í útibúinu í Kringlunni. Tek það þó fram að þetta var nýr starfsmaður en ekki minn venjulegi þjónustufulltrúi sem hefur reynst mér vel í gegnum árin. Svona framkoma er samt alveg nóg til að maður staldri við og rifji upp allan þennan milljónagróða sem þetta fyrirtæki hreykir sér af á hverjum degi að því er virðist.
Ruth Ásdísardóttir, 22.3.2007 kl. 21:31
Það er satt að maður vill EKKI eiga viðskipti við svona fólk. Það er svo ótrúlega fráhrindandi að það er rétt hjá þér að kanna aðra staði. Sjálf er ég í Landsbankanum Selfoss útibú, og hef aldrei verið jafn ánægð með bankann minn. En báknið á líka veð í húsinu mínu.......svo það er spurning hvort það er husið eða ég sem brosað er til, hver veit. En ég hef lent í svona óforskammaðri ókurteisi í Eurocard fyrir svosem 2-3 árum sem lét mig missa svo gott sem málið meðan kona með þóttasvip lét dónaskapinn vaða yfir mig....og ég var ekki einu sinni að ræða skuld eða neitt slíkt heldur að sækja nýa kortið mitt. Sagt hafði verið við mig í síma að ég þyrfti ekki ábyrgðarmann því heimildin var svo lág, en þessi frauka heimtaði þá víst og ég var að fara erlendis daginn eftir. Það var ekki beðist afsökunar eða neitt. Eftir hlaup um allan bæ til að fá undirskriftir ábyrgðarmannanna OG votta gaf þessi sama kona í skyn að undirskriftirnar væru falsaðar,,,," Hva.....bara alveg eins skriftir" smá hik og svo þóttasvipurinn á ný. Ég hef aldrei fyrr né síðar lent í annari eins framkomu hjá jafnstóru fyrirtæki og Eurocard er. Ég fékk nafnið hjá henni og hringdi svo og klagaði.
Íris (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 11:28
Ég er alveg sammála þér íris. Maður á ekki að láta svona yfir sig ganga. Þetta fólk veit ekkert um manns einkahagi, aðstæður né lífshætti. Ég held ég hætti að kaupa út á krít hjá Europay.
Ruth Ásdísardóttir, 26.3.2007 kl. 20:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.