Heimsendir

Ég fór á Hugvísindaþingið í Háskólanum seinustu helgi og hlustaði þar á afar áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur sem Guðni Elísson hélt. Hann fjallaði um orðræðuna varðandi gróðurhúsaáhrifin og mengun í heiminum og notaði rannsóknir sem gerðar höfðu verið í Bretlandi máli sínu til stuðnings.
Ég ætla nú ekki að segja frá fyrirlestrinum í smáatriðum en hann talaði um ákveðin glundurroða sem skapast hefur í þessari orðræðu. Okkur er ýmist sagt að veröldin sé að farast í næstu viku eða að þetta sé allt saman helber móðursýki í brjáluðum vísindamönnum. Það ber engum saman um málið lengur, ef það hefur þá nokkur tíma verið raunin.

En hvað ætli sé þá til ráða? Og ætli það finnist nokkur tíma lausn á þessu vandamáli? Kannski má líkja þessu örlítið við rökræður manna sem hófust á tímum endurreisninnar þar sem kirkjunnar menn börðust gegn mönnum sem vildu efla rökhyggju hjá almenningi. Vísindamennirnir væru þá enn í hlutverki rökhyggjumanna en þeir sem hafa hagsmuna að gæta væru þá kirkjunnar menn. Í dag trúa þeir ekki opinberlega á Guð almáttugan uppi á himnum, heldur á heimsmarkaðinn og neyslusamfélagið.

Án þess að vilja vera of svartsýn, þá held ég að við Jarðaríbúar eigum ekki eftir að taka við okkur fyrr en við hreinlega getum ekki lengur fengið hreint vatn að drekka og okkar eigin tilvera er í rauninni í hættu. Þegar við sjáum fram á það að við gætum í rauninni dáið af ýmsum kvillum tengdum þessu, þá held ég að við eigum eftir að taka við okkur.
Það má kannski líkja þessu líka við alkóhólistann eða fíkniefnaneytandann. Oft og tíðum verður hann að reyna eymdina sjálfur áður en hann leitar sér hjálpar. það er kannski ekki fyrr en hann er búin að brenna allar brýr að baki sér og það eina sem blasir við honum er dauði, sem hann fer og berst fyrir lífi sínu.
Ég er kannski óþarflega svartsýn en ég held að þetta sé raunin. Ég er alveg jafnsek og flestir varðandi þetta. Ég tek þátt í orðræðunni, heimsendakenningunum og neyslusamfélaginu, og allt á sama tíma. Áhugaverð pæling hjá Guðna Elíssyni sem fékk mig sannarlega til að hugsa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ruth Ásdísardóttir

Smá innlegg: Margir Jarðarbúar hafa og eru að sjálfsögðu að upplifa hryllinginn sem fylgir að fá ekki vatn að drekka o.s.frv. Hér er ég að meina Vestur-heim, og Austur - heim líka, eða í rauninni alla þá sem ráða heimsmarkaðinum og stýra neyslusamfélögunum. Bara svo að engin misskilningur sé á ferð. :)

Ruth Ásdísardóttir, 15.3.2007 kl. 09:52

2 identicon

Til hamingju með nýstofnað blogg og mikið rétt þá held ég að rætt verið um hlýnun jarðar í fjölmörg ár í viðbót áður en eitthvað róttækt gerist ....  

Linda (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband