2.4.2007 | 20:20
Vændi og hvað svo?
Ég verð eiginlega aðeins að fá að tjá mig um þessa lögleiðingu vændis sem var hent í gegnum alþingi á seinasta degi. Mig langar bara að byrja á því að spyrja hvar stjórnarandstaðan var núna með málþóf og mótmæli? Og af hverju fékk þetta svona litla umfjöllun í fjölmiðlum?
Ég verð eiginlega bara að segja, að ég algjörlega og hreinlega skil ekki hvernig á þessu stendur. Hvernig dettur ráðamönnum þjóðarinnar í hug að gera þetta eftir alla þessa umræðu og allt sem á undan hefur gengið í samfélaginu? Þetta er jafn fáránlegt og að lögleiða kókaín eftir stóra kókaínmálið. Þetta er jafn fáránlegt og koma á fót einhvers konar aðskilnaðarstefnu hér þar sem erlendum aðilum yrði meinað að sitja fremst í strætisvagninum, mættu ekki kaupa sér bíla og að lögleiðing Kux Klux Klan færi í gegnum alþingi án þess að nokkur myndi mótmæla.
Mig langar að auglýsa eftir fylgjendum vændis, hér og nú. og mig langar að biðja þetta fólk að koma með haldbær rök fyrir því að þessi ,,iðn" sé virðingarverð og mannbætandi. Mig langar líka til að biðja þetta sama fólk að benda mér á manneskju sem hefur stundað vændi og er afar hamingjusöm og sátt við sjálfa sig. Enn langar mig að biðja þetta sama fólk að segja mér að það vilji sjá ástvini sína stunda vændi. Og þá kem ég aftur að því sem ég nefndi hérna í annarri bloggfærslu minni; þetta fólk sem styður þetta svona tryggilega á ábyggilega ekki ástvini, eiginkonur, dætur, systur, mæður, feður, syni, eiginmenn osfrv. sem stunda vændi. Staðreyndin er nefnilega sú að vændi og mansal að öllu tagi er mannskemmandi og einkennist af mannfyrirlitningu.
Það er ekki hægt að mótmæla þessu sem ég er að segja. Það er hreinlega ekki hægt. Við höfum jú öll frelsi til að eyðileggja líf okkar. En hvernig sem litið er á málið, þá er ekki hægt að segja að vændi sé mannbætandi og þetta sé virðingarvert starf. það verður líka að horfa hinu megin við borðið og sjá hlutina frá sjónarhorni þeirra sem stunda þetta auðvirðulega starf. Það er enginn heilvita maður sem stendur upp í þessu samfélagi og segir með stolti að dóttir hans/hennar stundi vændi.
,,Já, hvað gerir hún Gunna dóttir þín aftur?"
,,Jú, hún er nú hóra að líf og sál, henni finnst svo gaman að þessu blessunin".
,,Æ, flott hjá henni, minni dóttur langar svo líka að verða hóra, en hún er bara svo mikil tepra að hún hefur ekki byrjað á þessu ennþá....."
Og ef fylgjendur vændis vilja mótmæla þessu, þá langar mig að spyrja hvort einmitt þessir sömu aðilar höfðu ekki mjög hátt þegar fjölmiðlafræðingurinn sletti fram greiningu á forsíðu tískublaðs og kallaði fermingarstelpuna klámstjörnu (og hóru vildu sumir meina)? Það varð allt vitlaust yfir þessu máli og sumir gengu meira að segja svo langt að heimta að konan sú bæði föður stúlkunnar afsökunar. Nú er ég alls ekki að segja að þetta hafi átt rétt á sér, og er ég sammála því að það þurfi að tala varlega í kringum fólk. En ef það að vera klámstjarna og hóra á að vera svona uppi á yfirborðinu og sniðugt og venjulegt. Af hverju má þá ekki kalla alla stúlkur og konur hórur og vændiskonur?
Við lifum á tímum þar sem við vitum að eiturlyf eru mannskemmandi, áfengi getur orðið okkur að aldurtila, reykingar eru lífshættulegar, að deyða aðra manneskju er glæpur, að nauðga manneskju er einnig glæpur, kynþáttafordómar eru ekki löglegir, að misnota barn er glæpur, að stunda vændi er mannskemmandi og ekkert felst í því nema mannfyrirlitning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.3.2007 | 14:54
Zero Sniðugt
Markaðssetning nýju kóktegundarinnar er að mínu mati fullkomlega misheppnuð. Það virðist sem þessi drykkur eigi einungis að höfða til mjög ungra karlmanna sem vita enn ekki hvað góður forleikur er og finnst ennþá sniðugt að koma illa fram við kærustuna sína, eða svo er þeim sagt. Er verið að gera lítið úr karlmönnum með þessari auglýsingu? Það er allavega greinilegt að ekki er verið að tala við mig í þessari auglýsingu...og ekki veit ég heldur í rauninni við hvern verið er að tala. Þetta er allavega að höfða Zero til mín sem neytanda.
Ætli Pepsí standi á bakvið þessa auglýsingu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.3.2007 | 20:28
Ökuníðingar, standið upp!
Hafa ekki allir setið í kaffi í vinnunni og talað um ökuníðinga? Og ég er viss um að nánast allir eiga slæma reynslusögu úr umferðinni. En, hverjir eru þessi níðingar sem við erum alltaf að tala um?
Ég fór á Eyrarbakka í gær einu sinni sem oftar og keyrði að sjálfsögðu Suðurlandsbrautina og fór Þrengslin. Veðrið var hvorki brjálað né skall á blindhríð án viðvarana, en það rigndi hins vegar mjög mikið, skyggnið var ekki fullkomið og mikið vatn hafði safnast saman í hjólförin á veginum, auk þess sem umferðin var þétt og mikil.
En viti menn, framúr stórum bílum sem smáum flugu stórir jeppar og skeyttu engu um hvort bíll var að koma á móti eða ekki. Engu skiptir að þessir menn/konur eru að stofna lífi ALLRA í kringum sig í hættu. Þessir ökuníðingar víluðu ekki við sér að snarhemla og smeygja sér á milli bíla þar sem bilið var svo lítið að nánast ekkert hefði mátt útaf bregða til að valda stórslysi!
Ég tek það fram að þetta voru ekki unglingar nýkomnir með bílpróf, heldur var þetta fólk á stórum og dýrum jeppum og fjölskyldubílum. Ég bara spyr, hvaða fólk er þetta eiginlega? Eftir alla þessa umræðu um Suðurlandsveginn og ég tala nú ekki um þau hörmulegu slys sem orðið hafa á brautinni, hverjum dettur þá í hug að keyra svona? Mér er spurn.
Annars langar mig bara að segja að það verður að fara tvöfalda brautina. Það stoppar kannki ekki ökuníðingana, en þeir eru allavega ekki að hætta lífi eins margra með ökulagi sínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.3.2007 | 22:23
New York og náttúran
Í mörg ár hefur mig alltaf langað að koma til New York. Ég hef séð ótal margar rómantískar kvikmyndir sem gerast í þessari borg borganna, ásamt því að hafa séð hana tortímast með misgóðum tæknibrellum ótal sinnum. Það var eitthvað sem heillaði mig einstaklega við þessa borg og mig langaði óskaplega til að snerta á þeim heilaga stað sem New York borg gefur sig út fyrir að vera. Þetta er staðurinn þar sem draumarnir rætast, hérna verður maður ríkur ef maður er bara nógu sterkur og slyngur, hérna er vagga heimsins.
Með þessar goðsagnir í farteskinu flaug ég til New York seint í nóvember á seinasta ári. Ég var búin að sérvelja allan fatnað og þaulskipuleggja alla dagana - tískufræðilega séð. Maður gengur náttúrulega ekki um Manhattan í sömu fötunum og maður hleypur út í Nóatún á mánudagskvöldum. Fyrir mér var eiginlega aðal atriðið samt að sjálfsögðu að sjá borgina, ganga upp og niður Fith Ave., sitja í Central park, fara niður í The Village, labba einn hring í Tiffany´s, sjá bókasafnið ásamt ótal fleiru.
Ég hélt einhvern veginn, í öll þessi ár að þessi borg væri einskonar Mekka okkar Vesturlandabúa. Að ef ég myndi einhver tíma koma á þennan stað, þá myndi ég öðlast aftur (kannski örlítið barnalega) trú mína á vestræna menningu. Að ég fengi staðfest að það væri vel þess virði að leggja allt í sölurnar fyrir framan, að peningar skiptu nú kannski höfuðmáli þegar að hamingjunni kæmi og að útlitið segði mikið um einstaklinginn.
New York Olli mér sárum vonbrigðum, eða kannski frelsaði mig öllu heldur. Þetta er einn daprasti staður sem ég hef nokkur tíma komið á. Maturinn er jú mjög góður, en yfir borginni grúfir sorg og dapurleiki sem ristir djúpt. Hún minnir á einhvers konar risa sem nærist á engu nema eigin holdi og blóði. Og risinn er komin langt með sjálfan sig, búin að éta úr sér hjartað og farin að naga beinin.
Ég lærði eiginlega heilmikið á því að fara þessa ferð. Hún kenndi mér í rauninni mjög margt. Risa stórar peningaupphæðir, mikil völd, blind framasýki, steypa og gler er ekki eitthvað sem ég þrái. Ég þarf náttúruna í kringum mig, fólk sem trúir ekki bulli eins og Frjáls Ameríka og Ameríski Draumurinn. Ég þarf líka að geta horft upp til himins og séð sólina, en ekki skyscrapers, ljósaskilti og flugvélar.
Í New York fann ég engan veginn rómantíkina sem Norah Ephron sviðsetur í kvikmyndum á borð við Sleepless in Seattle og You´ve got Mail. Ég sá heldur ekki einbeitt og sigurglatt fólk. Það eina sem ég sá voru endalaust pirraðir íbúar sem voru yfirhöfuð mjög dónalegir við hvern annan.
New York stendur eiginlega bæði fyrir það besta í vestrænni menningu (þú getur fengið allt þarna sem viðkemur gerviþörfum og nútímamenningu) en einnig því allra versta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.3.2007 | 13:03
Hroki og hleypidómar
Nú er komið svo að ég held, að bankarnir í þessu landi líta á sig sem aristókrata og kóngafólk sem drottna yfir ,sauðsvörtum almúganum". Ég átti leið mína í Kaupþing banka um daginn en það er bankinn sem ég á viðskipti við. Þar mætti mér ótrúlega hrokafull ung stúlka sem kallar sig því miður ÞJónusturáðgjafa. Hún vildi ólm sýna vald sitt yfir mér (sem er greinilega sauðsvartur almúginn í hennar augum), og spurði mig til dæmis hvað ég hefði verið að kaupa mér út á krít? Og var þá að vísa í Mastercard reikninginn minn. Ég veit ekki til þess að það komi þessari stúlku við hvað ég er að kaupa mér út á krít, og eins og það hafi ekki verið nægilega dónalegt að spyrja mig þessarar spurninga, þá hélt stúlkan áfram og sagði stundarhátt: ,,Ja, það hlýtur að hafa verið eitthvað mjög stórt fyrst þú ert að borga svona mikið" !
Ég verð að segja að mér varð hreinlega orðfall og skyndilega rifjaðist upp fyrir mér sú tíð þegar ég var tvítug ung stúlka og þurfti að panta tíma hjá bankastjóranum. Þar sat ég svo lúpuleg, loksins þegar ég fékk áheyrn og reyndi einhvern veginn að sannfæra karlinn á háa stólnum að ég væri nú alveg borgunarmaður/kona fyrir láninu sem ég, auðvirðulegur viðskiptavinurinn, ætlaði náðarsamlegast að taka.
Með tímanum sáu bankarnir þó að þeir myndu væntanlega græða meira ef þeir auglýstu sig sem jafninga fólksins. Og það hlýtur að hafa tekist svona rosalega vel, vegna þess að nú er velferð bankans sem ég skipti við orðin slík að starfsmennirnir halda það sé sjálfsagt mál að koma fram með yfirlæti og hroka við viðskiptavini sína sem hafa kannski öll sín viðskipti við bankann, og borga auk þess fyrir það himinhá þjónustugjöld, vexti og annan kostnað. Ég verð að viðurkenna að ég hreinlega reiðist þegar ég lendi í svona vitleysu núna í dag. Bankar eins og Kaupþing leigja sér rándýra leikara til að taka þátt í auglýsingaherferð og þykir ekkert tiltökumál að segja frá tuga prósenta launahækkunum ráðamanna í æðstu stöðum.
Bankar eins og Kaupþing virðast algjörlega vera að gleyma hvaðan peningarnir koma, en það er fólkið í landinu sem heldur þessum stofnunum uppi, og jú, með himinháum þjónustugjöldum. Ég er þar af leiðandi ekki til í að fulltrúi Kaupþings gagnrýni mig fyrir hvað ég eyði á kreditkortinu mínu. Þar af leiðandi hef ég hugsað mér að segja bankanum mínum upp og leita til annars banka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.3.2007 | 18:02
Fyrirlestur um Söngleiki
Ég ætla örugglega að fara, ef heilsan leyfir það er að segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2007 | 09:33
Smá um trúarbrögð
Þó ég ætli nú ekki að fara út í neina stórkostlegar umræður um trúarbrögð, þá langar mig bara aðeins að minnast á umræðu sem átti sér stað í útvarpsþættinum Í bítið á Bylgjunni bæði í gærmorgun og svo aftur núna í morgun. Tveir menn frá sitthvoru trúarfélaginu sátu og rifust um það hvor trúin væri nú betri og þar fram eftir götunum. Þetta voru Gunnar í Krossinum og fulltrúi frá félagi sem kallar sig Vantrú http://www.vantru.is/
Fyrst áttu þeir bara að vera í gærmorgun en Heimir Karlsson, stjórnandi þáttarins sá að það þýddi greinilega ekki að gefa svo viðamikilli umræðu einungis tíu mínútur þannig að hann bauð þeim aftur í morgun. Ég hlustaði á mennina hreinlega rífast um þetta á meðan ég keyrði í vinnuna í morgun.
Ég verð að segja að rökin sem báðir þessir menn komu með var einstaklega furðuleg ef satt skal segja. Þeir virðast báðir vera öfgana á milli. Annar trúir á Guð og biblíu, hinn á andstæðuna, þ.e. ekki Guð og ekki biblíu. Þeir eru semsagt báðir öfgatrúarmenn. Allt í fína með það. Ætla ekki að leggja fram neinn dóm um það, en ég get ekki annað en fundist svona umræða/rifrildi svolítið hjákátleg(t). Allir hafa rétt til að trúa því sem þeir vilja, svo framalega sem það beinlínis skaðar ekki aðra. En ekki bara það, heldur var líka svolítið skondið að hlusta á þessa fullorðnu menn hreinlega rífast eins og í grunnskóla um það hvor þeirra Guð væri nú sannari, skemmtilegri, vitrænni og manneskjulegri.
Og svona til að enda þetta, þá ætla ég nú alls ekki að halda því fram að það skaði ekki fólk að trúa. Vegna þess að ég veit ekki betur en að mesta mannfall mannkynssögunnar sé af völdum mismunandi trúar, í hvers konar líki sem hún birtist. Nýjustu trúarbrögðin eru peningar, og nú í dag eru karlmenn, konur og börn að falla umvörpun vegna þessa nýja Guðs. Ég held eiginlega að ekki sé hægt að afgreiða svona mál á tveimur dögum, tíu mínútur í senn. Áhugaverð tilraun þó verð ég að segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.3.2007 | 22:20
Bækur, Bækur og aftur Bækur
Ekki þarf að efast um ást mína á bókum!! Ég er óskaplega hamingjusöm í dag vegna þess að ég var á mínum fyrsta Skruddu fundi í gærkvöldi, en það er nýi lesklúbburinn sem við vinahópurinn stofnuðum okkur til fræðslu og yndisauka.
Ég missti af stofnfundinum og tók því ekki þátt í að semja reglurnar sem hægt er að lesa á blogginu hans Kidda (sjá til hliðar). En mikið var yndislegt að sitja langt frameftir kvöldi og ræða allt milli himins og Jarðar. Það höfðu allir eitthvað að segja og það var bara yndislegt að hlusta á svo mörg sjónarhorn og skemmtilegar pælingar.
Við lásum annars bók sem heitir Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur og öllum sem lásu hana þótti hún ansi góð. Sumum fannst hún reyndar hökta svolítið á köflum, en allir voru sammála um að hún er mjög vel skrifuð og mér finnst mjög vel farið með sjónarhorn inúítana. Mæli bara eindregið með Vilborgu Davíðsdóttur. Vil tvímælalaust lesa meira eftir hana.
En svona talandi um bækur. Þá æxlaðist það nú einhvern veginn þannig, að mitt í allri sunnudagsletinni fann ég bókina um Kristjönu F. upp í bókaskáp. Þá bók hef ég alltaf lesið með vissu millibili í gegnum árin og það er gaman frá því að segja að viðhorf mitt er alltaf breytt, eða einhvern veginn öðruvísi í hvert skipti sem ég les þessa bók.
En, það merkilega við lestur bókarinnar núna er að mér datt í hug að Googla stelpuna og var algjörlega sannfærð um að hún hefði dáið í kringum árið 1986. Ég man meira að segja eftir fréttum þar sem sagt var frá andláti hennar. En, nei, hún er á lífi og á meira að segja 10 ára gamlan son og lifir svona þokkalegu lífi virðist vera.
http://profile.myspace.com/index.cfm?fuseaction=user.viewprofile&friendID=135544693
Ég verð að segja að þetta gjörbreytir hugarfari mínu við lesturinn. Nú er meiri von í textanum og mér líður betur þegar ég veit að hún kemst upp úr andstyggðinni í lokin. Hún á örugglega alltaf erfitt með að lifa með reynslu sinni, en núna veit ég allavega að bókin endar ekki með dauða hennar.
Annars svona til að ljúka umræðu minni um nýstofnaða bókaklúbbinn, þá var afráðið í gærkvöldi að næsta bók sem lesin verður er Pride and Prejudice. Það verður ansi áhugavert er ég hrædd um. :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.3.2007 | 09:46
Heimsendir
Ég fór á Hugvísindaþingið í Háskólanum seinustu helgi og hlustaði þar á afar áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur sem Guðni Elísson hélt. Hann fjallaði um orðræðuna varðandi gróðurhúsaáhrifin og mengun í heiminum og notaði rannsóknir sem gerðar höfðu verið í Bretlandi máli sínu til stuðnings.
Ég ætla nú ekki að segja frá fyrirlestrinum í smáatriðum en hann talaði um ákveðin glundurroða sem skapast hefur í þessari orðræðu. Okkur er ýmist sagt að veröldin sé að farast í næstu viku eða að þetta sé allt saman helber móðursýki í brjáluðum vísindamönnum. Það ber engum saman um málið lengur, ef það hefur þá nokkur tíma verið raunin.
En hvað ætli sé þá til ráða? Og ætli það finnist nokkur tíma lausn á þessu vandamáli? Kannski má líkja þessu örlítið við rökræður manna sem hófust á tímum endurreisninnar þar sem kirkjunnar menn börðust gegn mönnum sem vildu efla rökhyggju hjá almenningi. Vísindamennirnir væru þá enn í hlutverki rökhyggjumanna en þeir sem hafa hagsmuna að gæta væru þá kirkjunnar menn. Í dag trúa þeir ekki opinberlega á Guð almáttugan uppi á himnum, heldur á heimsmarkaðinn og neyslusamfélagið.
Án þess að vilja vera of svartsýn, þá held ég að við Jarðaríbúar eigum ekki eftir að taka við okkur fyrr en við hreinlega getum ekki lengur fengið hreint vatn að drekka og okkar eigin tilvera er í rauninni í hættu. Þegar við sjáum fram á það að við gætum í rauninni dáið af ýmsum kvillum tengdum þessu, þá held ég að við eigum eftir að taka við okkur.
Það má kannski líkja þessu líka við alkóhólistann eða fíkniefnaneytandann. Oft og tíðum verður hann að reyna eymdina sjálfur áður en hann leitar sér hjálpar. það er kannski ekki fyrr en hann er búin að brenna allar brýr að baki sér og það eina sem blasir við honum er dauði, sem hann fer og berst fyrir lífi sínu.
Ég er kannski óþarflega svartsýn en ég held að þetta sé raunin. Ég er alveg jafnsek og flestir varðandi þetta. Ég tek þátt í orðræðunni, heimsendakenningunum og neyslusamfélaginu, og allt á sama tíma. Áhugaverð pæling hjá Guðna Elíssyni sem fékk mig sannarlega til að hugsa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.3.2007 | 11:36
Alhæfingar
Margir hafa borið fyrir sig vankunnáttu í því að skilgreina klám. Hvað er klám? Er fullorðið fólk virkilega ekki með það á hreinu? og ef við vitum það ekki, kynnum okkur það þá áður en við hlaupum af stað með heykvíslir og snörur til að stinga og hengja illu femínistana sem berjast gegn klámvæðingu. Mér finnst einnig fyndið að heyra hvernig kvenleiki konunnar er alltaf blandaður inn í umræðuna. Konur eru teprur sem ekki hafa gaman að svolitlu hardcore klámi svona við og við. Og hvað þýðir þá að vera tepra? Þetta er næstum því eins og fólk kallaði einhvern hommatitt hérna á 9. áratgnum til að móðga einhvern. Þetta á ekki við lengur og mér finnst nánast skondið að sjá svona málnotkun enn í dag. Svo er annað mjög áhugavert sem gallharðir klámsinnar ættu kannski aðeins að athuga. Hversu margir ástvinir, nánir vinir eða aðrir þeim kærir eru í þessum iðnaði? hafa þessir menn/konur lifað í þessum heimi sjálf? Eiga þau dætur, syni, mæður, systkin í þessum bransa? En þá er þetta líka spurning um hver hefur rétt á að tala? Allir að sjálfsögðu, en það er samt grátlegt að sjá allar þessar alhæfingar frá svo mörgum og það gengur meira að segja svo langt að sum blöðin birta forsíðumynd af meðmælanda kláms, rétt eins og það sé virðingarvert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)